Shortcuts, jump to:

Welcome to Ninamargret.com - ninamargret.com


Guðný Guðmundsdóttir var ráðin 1. konsertmeistari við Sinfóníuhljómsveit Íslands haustið 1974. Auk starfa sinna með hljómsveitinni hefur Guðný kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifað marga efnilega nemendur, sem margir hverjir hafa komist að í þekktum erlendum háskólum, unnið til verðlauna á alþjóðavettvangi og komist í leiðandi stöður bæði heima og erlendis. Hún hefur nú verið ráðin kennari við nýstofnaða tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Á undanförnum árum hefur Guðný, auk viðamikils tónleikahalds heima fyrir,gert víðreist á erlendri grund og komið fram sem einleikari með hljómsveitum í Mexíkó, Hong Kong og Puerto Rico. Hún hefur einnig haldið tónleika í Ísrael, Japan og Kína og í mörgum Evrópulöndum og á Norðurlöndum. Guðný hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir tónlistarstörf, s.s. riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1989 og Menningarverðlaun DV árið 1990. Guðný er meðlimur í Tríói Reykjavíkur ásamt Peter Máté og Gunnari Kvaran. Hún hefur leikið inn á nokkrar geislaplötur bæði einleik og kammertónlist. Geisladiskur með einleiksverkum eftir Þórarin Jónsson, J.S.Bach, Hallgrím Helgason og Hafliða Hallgrímsson er nýkominn á markaðinn og var tilnefndur til íslensku tónlistarverðlaunanna í ár.